4 Apríl 2021 13:19

Líðan skipverja um borð í súrálsskipinu í Mjóeyrarhöfn þróast í rétta átt. Fjórir af þeim tíu sem smitaðir voru um borð við komu skipsins 20. mars síðastliðinn voru útskrifaðir í morgun. Fimm eru enn í einangrun um borð en vonir standa til að þeir verði útskrifaðir einnig fljótlega. Sá tíundi sem fluttur var talsvert veikur á Landspítala 28. mars útskrifaðist fyrir 2 dögum á sóttvarnarhús í Reykjavík. Hann nýtur eftirlits starfsfólks COVID-deildar Landspítala. Skráðum einstaklingum í einangrun í fjórðungnum ætti því að óbreyttu fara nokkuð hratt fækkandi næstu daga. Þá eru líkur á að súrálsskipið geti haldið til hafs fljótlega.

Starfsfólk HSA sem vitjað hefur áhafnarmeðlima súrálsskipsins reglulega bar í gær með sér páskaegg um borð fyrir hvern og einn þeirra. Það var gert að frumkvæði íbúa á Reyðarfirði og með styrk Alcoa Fjarðaáls sem vildu þannig sýna vinarþel þeim til handa og samkennd. Móttaka heilbrigðisstarfsmanna um borð var góð eins og alltaf áður en sérstaklega að þessu sinni. Vel gert Reyðfirðingar.

Unnið er að opnun sóttvarnarhúss á Hótel Hallormsstað fyrir komu Norrænu á þriðjudag. Gert er ráð fyrir tuttugu og sjö farþegum með ferjunni. Að líkindum þurfa sjö þeirra að dvelja í sóttvarnahúsi í fimm daga meðan beðið er niðurstöðu tveggja skimana í samræmi við reglur er tóku gildi 1. apríl síðastliðinn. Aðrir farþegar fara í hefðbundna skimun við komu, þá í fimm daga sóttkví og skimun að nýju.