6 Apríl 2021 20:07

Ekkert nýtt smit hefur greinst á Austurlandi nýverið.

Líðan skipverja af súrálsskipinu við Mjóeyrarhöfn á Reyðarfirði heldur áfram að þróast í rétta átt. Þeir átján sem enn eru um borð fóru í sýnatöku í dag til að meta sem best stöðuna gagnvart framhaldinu. Niðurstöðu er að vænta með kvöldinu eða í fyrramálið. Gera má ráð fyrir að skipið geti siglt á ný um eða eftir helgi, hlaupi engin snurða á þráðinn.

Góðar fréttir eru einnig af þeim sem komu með Norrænu fyrir hálfum mánuði og þurftu í einangrun vegna smits. Vonir standa til að þeir verði útskrifaðir innan tíðar.

Ástandið í fjórðungi drekans telst því nokkuð gott þrátt fyrir allt. Öll teljast smitin til landamærasmita en ekki samfélags. Þau fundust í tíma og eru einangruð eins og hægt er. Hætta er því hverfandi á dreifingu þeirra.

Bjart er því framundan en mikilvægt sem fyrr að láta hvergi skeika að sköpuðu heldur gæta að okkur í hvívetna. Höldum fjarlægð, notum grímu þar sem það á við og munum handþvott og sprittun snertiflata. Þannig brokkum við létt yfir þessa hæð sem við römbuðum að nýverið og stefnum glaðbeitt í átt til sólar hinumegin.