14 Apríl 2021 12:24

Einn er í einangrun vegna smits á Austurlandi. Um landamærasmit er að ræða og tengist komu tuttugu og fimm manna hóps með Norrænu fyrir þremur vikum síðan.

Fjörutíu farþegar komu með Norrænu í gærmorgun. Þeir fóru allir í sýnatöku og fengu leiðbeiningar um sóttkví í framhaldinu. Þrír farþeganna þáðu boð um gistingu á sóttkvíarhóteli á Hallormsstað. Aðrir voru með gistingu á eigin vegum.

Sýnatökur í fjórðungnum ganga vel og eru milli tíu og tuttugu sýni tekin á dag. Eru íbúar í því sambandi sem fyrr hvattir til að halda sig heima og fá leiðbeiningar um sýnatöku í síma 1700 ef veikinda verður vart.

Bólusetningar ganga vel einnig og gert ráð fyrir að um þrjúhundruð og sextíu austmenn fái bólusetningarsprautu í vikunni.

Nýjar sóttvarnareglur eru væntanlegar frá og með 16. apríl næstkomandi. Má ætla að þær verði rýmkaðar innanlands frá því sem nú er. Mikilvægt er að við gætum að okkur og göngum ekki svo hratt um dyr gleðinnar að hrösun verði á síðasta spelinum. Stutt er eftir í baráttunni. Klárum hana saman.