15 Júní 2021 17:57

Tveir eru enn í einangrun á Austurlandi vegna COVID smits. Báðum heilsast vel og gert ráð fyrir að þeir verði útskrifaðir á næstu dögum.

Bólusetningar ganga vel og hafa allir einstaklingar á Austurlandi, fæddir 2005 og fyrr, fengið boð í bólusetningu. Á næstu 4 vikum mun bólusetningu þeirra sem fengið hafa fyrri bólusetningu ljúka. Opinn tími í bólusetningu, fyrir þá sem ekki hafa getað nýtt sér bólusetningarboð, verður auglýstur á facebooksíðu Heilbrigðisstofnunar Austurlands.

Nú styttist í hátíðahöld 17. júní og bæjarhátíðir og tónleikar af ýmsu tagi taka svo við í júlí. Aðgerðastjórn hvetur skipuleggjendur til að rýna vel sóttvarnareglur sem í gildi eru og fylgja í hvívetna líkt og þeir hafa gert fram til þessa. Þá eru gestir og hvattir til að gæta að sér og rasa hvergi um ráð fram í gleðinni.

Höldum okkar striki, gerum þetta saman og gætum að okkur sem fyrr.