15 Júlí 2021 18:03

Aðgerðastjórn telur rétt að senda frá sér tilkynningu er varðar skemmtiferðarskip sem hafði viðkomu á Djúpavogi í dag. Allir um borð eru bólusettir en hjá einum farþega greindist Covid-smit í fyrradag. Viðkomandi var þá þegar settur í einangrun um borð og makinn í sóttkví í annarri káetu. Á Djúpavogi fóru farþegar skipsins í land án fullnægjandi leyfis sem tilskilið var með vísan í framangreindar aðstæður um borð. Lögreglan skoðar nú hugsanlegt brot á reglum og fer með rannsókn málsins.

Það er mat aðgerðastjórnar að hætta á dreifingu smits af þessum sökum sé lítil. Hún hvetur engu að síður verslunareigendur og þjónustuaðila sem fengu til sín gesti frá skipinu, að gæta vel að sprittun og þrifum auk þess að nota tækifærið til að hvetja til áframhaldandi persónubundinna sóttvarna þrátt fyrir rýmri reglur innanlands.

Aðgerðastjórn fylgist með gangi mála og mun senda frá sér frekari tilkynningu ef þess er þörf.