24 Ágúst 2021 15:13

Á Austurlandi eru nú 10 í einangrun og 42 í sóttkví.

Í gær greindust tveir í viðbót með tengsl við leikskólann á Seyðisfirði, báðir voru í sóttkví við greiningu. Þannig eru alls 6 af 10 smitum á Austurlandi sem tengjast leikskólanum á Seyðisfirði. Seinni skimun hjá foreldrum, börnum og starfsmönnum leikskólans sem eru í sóttkví fór fram í gær og klárast í hádeginu í dag. Þá verður sóttkví ekki aflétt fyrr en við neikvæða niðurstöðu úr seinni sýnatökunni. Vonir standa til búið sé að ná utan um útbreiðslu smitsins og ekki er grunur um að smit sé á kreiki í samfélaginu. Áfram gætu þó bæst við smit eftir sýnatöku dagsins á Seyðisfirði en þeir einstaklingar væru þá flestir í sóttkví. Frekari tilkynning verður send út frá aðgerðastjórn þegar niðurstöður sýnatöku liggja fyrir.

Við brýnum fyrir fólki að vera vakandi fyrir einkennum og fara í sýnatöku ef minnsti grunur leikur á kórónuveirusmiti. Þá minnir aðgerðastjórn á mikilvægi persónubundinna sóttvarna.