19 September 2021 10:48

Tekin voru 40 sýni á Reyðarfirði í gær. Niðurstaða úr greiningu þeirra liggur ekki ennþá fyrir en hún ætti að gera það síðar í dag og verður þá kynnt.

Þau smit sem staðfest hafa verið dreifast víða um leik- og grunnskóla á Reyðarfirði. Erfiðlega hefur gengið að rekja þau enda snerting þeirra víða. Í samráði við rakningarteymi hefur því verið ákveðið að bæði Leikskólinn Lyngholt og Grunnskóli Reyðarfjarðar verði lokaðir á mánudag, þriðjudag og miðvikudag. Í kjölfar síðari skimunar sem fram fer hjá mörgum á þriðjudag verður staðan endurmetin þegar niðurstaða liggur fyrir, sem ætti að vera á miðvikudagsmorgun.

Boðið verður upp á sýnatöku á Reyðarfirði í dag, sunnudaginn 19. september frá kl. 12 – 13. Þeir sem hafa einhver einkenni eða telja sig hafa verið í samskiptum við smitaðan aðila eru hvattir til að mæta.

Smitrakningarteymi hefur sent frá sér upplýsingar um rétt viðbrögð þeirra sem eru í sóttkví eða hafa á annan hátt verið útsett fyrir smiti, um það hvaða reglur gilda. Viðbúið er að fleiri bætist í þann hóp á næstunni. Á heimasíðunni www.covid.is má finna frekari upplýsingar um reglur sem gilda um sóttkví og einangrun.

Við erum að sigla gegnum svolítið öldurót þessa stundin en sjáum til lands. Það mun þó reyna á okkur næstu daga – gætum því öll fyllstu varúðar og höldum áfram að feta okkur saman að lokatakmarkinu.