20 Nóvember 2021 19:50

Seint í gærkvöldi greindist smit hjá starfsmanni Umdæmissjúkrahúss Austurlands í Neskaupstað. Strax í morgun var hafist handa við að kortleggja þá sem höfðu verið í samskiptum við þann smitaða í samráði við rakningateymið. Til að gæta fyllstu varúðar var ákveðið að skima alla starfsmenn sem voru í vinnu síðastliðna daga og fór sú skimun fram á Neskaupstað kl. 16 í dag. Um 70 sýni voru tekin sem verða send suður á morgun. Niðurstöður koma því ekki fyrr en seint annað kvöld. Á meðan unnið er að því að skoða mögulega útbreiðslu smits innan sjúkrahússins hefur verið ákveðið í samráði við sóttvarnateymi HSA að takmarka heimsóknir á sjúkrahúsið og hjúkrunarheimilið fram á þriðjudag. Á meðan á því stendur verða heimsóknir aðeins í sérstökum tilfellum og þá metið í samráði við deildarstjóra.

Við hvetjum alla þá sem hafa einkenni sem geta bent til COVID-19, eða þá sem grunar að þeir gætu hafa verið útsettir fyrir smiti, að mæta í sýnatöku á morgun á Egilsstöðum. Þar verður opið í sýnatöku frá 11:30-13:30 og hægt að bóka á heilsuvera.is. Aðgerðastjórn fylgist með gangi mála og sendir út nýja fréttatilkynningu þegar frekari upplýsingar liggja fyrir.