8 Desember 2021 16:43

Vegna smita er greinst hafa á Eskifirði mun grunnskólinn lokaður á morgun. Enn er unnið að rakningu smita og staðan því óljós. Upplýsingar er varða mögulega áframhaldandi lokun skólans að hluta eða öllu leyti verður send foreldrum og forráðamönnum á morgun. Nemendur, foreldrar og forráðamenn barna í skólanum eru hvattir til að skrá sig inn á heilsuvera.is í sýnatöku á Eskifirði á morgun, í Eskifjarðarkirkju milli klukkan 11:00 og 13:00. Hið sama gildir um aðra íbúa Eskifjarðar sem telja sig útsetta fyrir smiti eða finna til minnstu einkenna. Allir aðrir sem af einhverjum ástæðum vilja fara í sýnatöku eru hvattir til þess.

Leikskólinn Lyngholt á Reyðarfirði verður og lokaður til hádegis á morgun meðan unnið er að smitrakningu frá sýnatöku er fram fór í gær. Niðurstöður er byggja á þeirri niðurstöðu verður send foreldrum og forráðamönnum í fyrramálið. Óvíst er því enn hvort skólinn verður lokaður allan daginn á morgun eða til hádegis.

Engin kennsla er í fjórða bekk grunnskólans á Reyðarfirði vegna smits sem þar kom upp. Fullvíst er talið að um einangrað smit sé að ræða en af öryggissjónarmiðum liggur öll kennsla í fjórða bekk niðri á morgun einnig.

Áréttað er að þó skólar séu lokaðir eru einungis þeir í sóttkví sem rakningateymi hefur verið í sambandi við. Hinir eru beðnir um að veita einkennum veikinda athygli þar til búið er að rekja öll smit og tilkynning þar að lútandi send út.  Skólastarf hefst um leið og næst utanum smitrakningu.