9 Desember 2021 16:44

Alls voru tekin 531 sýni á Austurlandi í dag en sýnataka var á Reyðarfirði, Eskifirði og Egilsstöðum. Aðgerðastjórn þakkar íbúum skjót og góð viðbrögð en fjöldi PCR sýna var framar vonum. Með því að fjölmenna í samfélagsskimun fáum við betri mynd af ástandinu eins og það er í dag. Þær upplýsingar skipta okkur miklu við að kortleggja útbreiðslu veirunnar.

Við hvetjum þá sem ekki komust í sýnatöku í dag til að mæta á morgun, föstudaginn 10. desember, en opið verður í sýnatöku á Reyðarfirði frá kl. 9 – 10:30 og á Egilsstöðum frá kl. 12-13:30. Búið er að auka við mönnun við sýnatökur til að koma í veg fyrir bið. Vert er að taka það fram að sé fólk með einkenni þá er mælst til þess að það haldi sig heima eftir sýnatökuna á meðan beðið er eftir niðurstöðum. Mæti einstaklingar hins vegar einkennalausir í skimun þurfa þeir ekki að halda sig heima heldur er í lagi að mæta í vinnu eða á aðra staði svo lengi sem hugað er vel að persónubundnum sóttvörnum, líkt og við þekkjum svo vel.