28 Desember 2021 21:34

Niðurstöður úr sýnatöku á Vopnafirði liggja nú fyrir en í morgun voru tekin 45 sýni úr öllu starfsfólki og íbúum hjúkrunarheimilisins Sundabúðar. Af þessum 45 sýnum voru 5 jákvæð og eru þau bæði meðal íbúa og starfsmanna hjúkrunarheimilisins. Vegna veðurs var sýnatöku sem vera átti kl. 17-18 í kvöld frestað og verður hún kl. 8-9 í fyrramálið. Niðurstöður úr þeirri sýnatöku er að vænta annað kvöld. Vegna óvissu um uppruna smits og að smitrakning stendur enn yfir verður lokað í leikskólanum, sundlaug og íþróttahúsinu á Vopnafirði á morgun miðvikudag og frekari upplýsinga að vænta annað kvöld.

Það verður mikil áskorun í þessum aðstæðum að manna hjúkrunarheimilið og eru því einstaklingar sem telja sig geta aðstoðað við vinnu á hjúkrunarheimilinu hvattir til þess að setja sig í samband við Emmu Tryggvadóttur framkvæmdastjóra hjúkrunar í Sundabúð í: emma@vopnafjardarhreppur.is

Þetta er stórt verkefni og aðgerðastjórn hvetur alla þá sem einkenni hafa að mæta í sýnatöku og vera þannig þátttakendur í að takast á við þetta . Gerum þetta saman hér eftir sem hingað til.