18 Janúar 2022 16:56

Síðastliðinn sólarhring greindust um 20 ný smit á Austurlandi, langflest þeirra á Reyðarfirði og í Neskaupstað. Það er því viðbúið að fleiri smit greinist næstu daga þar sem enn er töluverður fjöldi í sóttkví. Áfram er því mikilvægt að íbúar Austurlands fari í sýnatöku við minnstu einkenni eða grun um útsetningu smits.

Nú hafa tekið gildi nýjar mildari reglur um sóttkví þríbólusettra og þeirra sem eru tvíbólusettir og hafa jafnað sig af staðfestu COVID-19 smiti. Vert er að árétta að það gildir almennt ekki um börn á grunnskólaaldri enda hafa þau ekki verið þríbólusett. Hið sama á við um yngsta aldurshópinn 5-11 ára sem er rétt að hefja fyrri bólusetninguna. Það hefur borið á misskilning varðandi fyrrgreint atriði og rétt því að árétta hér. Um þessa mildari sóttkví má lesa á;  www.covid.is/undirflokkar/sottkvi

Vegna áhrifa farsóttarinnar hefur Heilbrigðisstofnun Austurlands þurft að grípa til mjög hertra aðgerða til að verjast þjónusturofi, en nokkrir starfsmenn HSA og aðrir sem í umboði HSA sinna sýnatöku hafa ýmist lent í einangrun eða sóttkví. Stofnunin hefur því m.a. gripið til þess ráðs að eiga símtal við alla þá sem óska þjónustu heilsugæslunnar áður en ákveðið er hvort viðkomandi komi inn á starfsstöð HSA. Þessu hefur fólk almennt tekið vel. Fyrir það þakkar HSA og vonast eftir áframhaldandi góðri samvinnu.