1 Febrúar 2022 15:58

Skráð smit á Austurlandi eru nú 48 talsins, flest í Fjarðabyggð. Þrettán smit bættust við í gær, þar af mörg meðal ungmenna í Neskaupstað.

Aðgerðastjórn minnir á bólusetningar í umdæminu sem enn eru í gangi, bæði örvunarbólusetningar fyrir fullorðna og bólusetningu barna og hvetur stjórnin sem fyrr til bólusetninga. Foreldrar og forráðamenn eru hvattir til að bóka bólusetningu fyrir börn sín gegnum netfangið bolusetning@hsa.is.

Þó aflétting sé hafin í áföngum þá hvetur aðgerðastjórn íþróttafélög, félagasamtök, fyrirtæki og íbúa til árvekni í hvívetna. Smit eru enn á sveimi og starfsemi heilbrigðisstofnana m.a. viðkvæm vegna einangrunar og sóttkvíar starfsmanna sem þeim fylgja. Órofinn rekstur er því ekki sjálfgefinn enn sem komið er.

Förum varlega þennan spöl sem vonandi er sá síðasti í þessu tveggja ára klöngri okkar.