8 Febrúar 2022 15:32

Skráð smit á Austurlandi eru nú 142 talsins. Ennþá eru þau flest í Fjarðabyggð en fjölgar nú hratt á Fljótsdalshéraði. Mörg smit hafa til að mynda greinst í grunnskólanum í Fellabæ.

Aðgerðarstjórn hvetur íbúa af þessum sökum til að fara í sýnatöku finni þeir fyrir einkennum. Foreldrar og forráðamenn barna og ungmenna eru að sama skapi hvattir til að huga að sýnatöku fyrir börn sín ef grunur leikur á smiti.

Í ljósi stöðunnar er mikilvægt að við gætum að okkur og höldum smitgát ef einkenni gera vart við eða við teljumst útsett fyrir smiti. Sjá leiðbeiningar um smitgát, –  Smitgát (covid.is)

Allar líkur eru á að við séum að ná yfir lokahjallann. Enn eru þó sprek og holur á leiðinni sem hægt er að hrasa um. Förum því varlega sem fyrr og fyrirbyggjum bakslag á lokametrunum.