21 Febrúar 2022 17:17

Um 300 virk smit eru nú á Austurlandi, dreifð um allan fjórðunginn. Í gær voru 240 sýni tekin sem flest voru vegna einkenna. Af þeim voru 117 smit eða rétt um 50%.

Nýgengi smita reyndist hvað mest á Héraði er tók þar fram úr fjörðunum sem áður höfðu verið þar í forystu. Í dag voru tekin 310 sýni og reikna má með að svör berist úr hluta þeirra í kvöld, þó mögulega fái einhverjir ekki svar fyrr en á morgun sökum álags í greiningu.

Ljóst er af þessum háu tölum, hvort heldur með vísan til fjölda þeirra sem fara í sýnatöku vegna einkenna eða hlutfalls þeirra sem reynast smitaðir, að smit dreifast nú hratt um umdæmið. Aðgerðastjórn hvetur því íbúa til að gæta að sér í hvívetna og halda sig til hlés þar sem það er mögulegt. Þá vekur hún athygli á að hvorki skal fara í skóla né til vinnu hafi fólk einkenni COVID smits og fara í sýnatöku og smitgát þar til svar liggur fyrir.

Aðgerðastjórn bendir á að  talsverð hálka er nú á COVID veginum og skyggni lélegt. Mikilvægt er því að fara með ítrustu gætni um þann krókótta veg þar til léttir til og birtir að nýju.