1 Mars 2022 19:06

Í dag voru tekin 252 sýni á Austurlandi og reyndust 142 þeirra jákvæð.

Aðgerðastjórn hvetur alla til að njóta þess að sóttvarnareglum hafi verið aflétt en áréttar sem fyrr að mörg smit og COVID veikindi eru í samfélaginu, hafa raunar aldrei verið fleiri en þessa dagana. Álag er því mikið á innviði mikilvægra stofnana, svo sem HSA. Mikilvægt er þess vegna að við gætum áfram að okkur, förum varlega í margmenni og nýtum grímuna eftir því sem efni standa til.

Aðgerðastjórn bendir og á nauðsyn þess að við höldum okkur heima ef einkenna verður vart og meðan þau vara. Mætum þá til að mynda ekki í vinnu eða í skóla. Þá er bent á að þeir sem hyggjast fara í hraðpróf þurfa að skrá sig á heilsuvera.is með rafrænum skilríkjum. Ef slík eru ekki fyrir hendi er hægt að skrá sig á hradprof.covid.is og fá kóða til sýnatöku. Niðurstöður þeirra sýna skrást þó ekki í sjúkraskrá viðkomandi eins og þeirra sem panta sýnatöku í gegnum Heilsuveru og því mælt með notkun rafrænna skilríkja.

Vonandi tekur þessi hlykkjótti COVID vegur bráðlega enda og beinni vegarkafli og breiðari bíður. Þangað til, – höldum áfram að passa upp á okkur og aðra í leiðinni.