8 Mars 2022 20:31

Í gær voru tekin 490 hraðpróf (helgin án sýnatöku) og 160 próf í dag, samtals 650 sýni þessa tvo daga. Af þeim reyndust 431 jákvæð eða 66% sýnanna, sem segir okkur að farsóttin er enn á fullri ferð og toppnum ekki náð.

Mikið álag er á allt heilbrigðiskerfið og nú hefur líka komið til innlagninga Covidsjúklinga á Umdæmissjúkrahús Austurlands í Neskaupstað. Veikindi eru á meðal íbúa tveggja af fimm hjúkrunarheimilum á Austurlandi. Dag hvern eru margir starfsmenn HSA frá vinnu vegna Covid-19 og í sumum tilvikum eru vaktlínur mannaðar frá degi til dags.

Þannig er núverandi Covid-bylgja að leika okkar landsvæði mjög hart og þess má vænta eitthvað áfram. Aðgerðastjórn brýnir því íbúa sem fyrr til að gæta að sér, nota grímu þegar það á við, viðhafa fjarlægð og vanda handþvott og sprittun en ekki síst að halda sig heima ef einkenna verður vart og fara þá í sýnatöku.

Öll él birtir upp um síðir en eins og sakir standa er skyggni afleitt á Austurlandi. Förum því fetið enn um sinn.