15 Mars 2022 19:10

Enn er talsverð aðsókn í  hraðpróf og meðal þeirra sem mæta fer hækkandi hlutfall þeirra sem greinast með Covid. Tekin voru 331 hraðpróf á Austurlandi í gær og af þeim reyndust 256 jákvæð eða 77%. Fyrir viku síðan, mánudaginn 7. mars, var sambærilegt hlutfall 67%. (495 sýni tekin og 332 þeirra jákvæð.)

Samtímis þessu er vitað að margir taka próf heima hjá sér. Fjöldi þeirra sem þar greinist er óþekktur. Síðustu daga virðist  á landsvísu sem við séum að ná toppi í nýgengi Covid-smita en sennilega liggur Austurland aðeins á eftir hvað það varðar.

Áfram er mjög viðkvæmt ástand í heilbrigðiskerfi landsins og HSA þar engin undantekning, en dag hvern eru margir starfsmenn frá vinnu vegna veikinda. Þannig hefur ástand á sumum hjúkrunarheimilum umdæmisins verið mjög erfitt, á sjúkradeildinni í Neskaupstað og sums staðar í heilsugæslunni.

Með vísan í framangreint hvetur aðgerðastjórn fólk til að viðhafa persónulegar sóttvarnir með sérstaka áherslu á fjarlægð, grímunotkun, handþvott og sprittnotkun. Á það til að mynda við í verslunum og þar sem margir koma saman, sumir mögulega með undirliggjandi sjúkdóma og því viðkvæmari fyrir smiti en ella. Munum einnig að taka Covid próf eða fara í sýnatöku verði einkenna vart.

Þetta er vonandi að hafast hjá okkur og mun gera það með samstilltu átaki okkar allra, þar sem hver gætir að sér og að náunga sínum í leiðinni.