3 Apríl 2020 17:10

Smit hefur ekki komið upp á Austurlandi undanfarna tvo sólarhringa. Þau eru alls sjö talsins.

Í sóttkví eru 98 einstaklingar og hefur þeim þá fækkað um 52 frá því í gær.

Á sama tíma og við höfum ástæðu til að gleðjast yfir hlutfallslega fáum smitum hér á Austurlandi þykir aðgerðastjórn rétt að árétta að skjótt geta veður skipast í lofti. Við þurfum því sem fyrr og í sameiningu að fylgja öllum leiðbeiningum í hvívetna. Er þar meðal annars vísað til ábendinga Almannavarna og sóttvarnalæknis um að halda ekki til fjalla og að láta sumarbústaðaferðir eiga sig. Hvorutveggja getur lagt þá stöðu sem við búum við í tvísýnu.

Aðgerðastjórn áréttar einnig að íbúar fækki ferðum sem mest í matvöruverslanir og geri þá stærri innkaup í hverri ferð. Þá er brýnt að fylgja leiðbeiningum í verslunum svo og frá starfsfólki enda er álag þar mikið og ekki meira á þá starfsemi leggjandi.

Höldum ró okkar en einnig vöku, styðjum hvert annað og hjálpumst að í þessari baráttu hér eftir sem hingað til