12 Júní 2020 17:38

Enginn er með virkt COVID-19 smit á Austurlandi.

Skipulag sýnatöku sem hefst 15. júní næstkomandi í Norrænu og á Egilsstaðaflugvelli gengur vel. Minnisblað aðgerðastjórnar Almannavarnanefndar á Austurlandi var send Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra 4. júní síðastliðinn. Í því kom m.a. fram sú tillaga að sýnataka færi fram í Norrænu á leið hennar til landsins. Aðgerðastjórn á Austurlandi hefur unnið þeirri tillögu fylgi og að framkvæmdinni meira og minna síðan. Mun teymi sýnatökufólks því halda til Færeyja á mánudagsmorgun með TF-SIF flugvél Landhelgisgæslu og þaðan um borð í Norrænu. Sýnataka verður svo framkvæmd um borð og vonandi lokið við komu ferjunnar til Seyðisfjarðar.

Aðgerðastjórn þakkar sérstaklega Landhelgisgæslunni fyrir þann stuðning sem hún hefur veitt við skipulag og framkvæmd og eins Smyril line vegna Norrænu. Komi óvænt atvik upp sem koma í veg fyrir að framkvæmdin gangi eftir er önnur aðgerðaáætlun til staðar. Sýnataka verður þá framkvæmd á Seyðisfirði við komu ferjunnar þangað á þriðjudagsmorgun.

Hvað varðar Egilsstaðaflugvöll og sýnatöku í flugstöðinni þá er allt að verða tilbúið þar. Það verkefni hefur aðgerðastjórn unnið í nánu samstarfi við ISAVIA og færir þeim einnig kærar þakkir fyrir.