23 Júní 2020 18:17

Norræna kom til hafnar á Seyðisfirði í morgun. Af 460 farþegum fóru um 300 í sýnatöku vegna COVID-19. Hinir þurftu ekki í sýnatöku þar sem þeir höfðu ekki dvalið í landi er telst til áhættusvæða síðustu fjórtán daga. Allir voru ferðamennirnir skráðir í miðlægan COVID grunn er tengist sýnatökunni og leystir út með leiðbeiningablaði Almannavarnadeildar og Sóttvarnalæknis. Þar kemur meðal annars fram hvernig skuli haga sér meðan niðurstöðu sýnatöku er beðið, einkenni COVID-19 smits og fleira.

Sýnatakan gekk vel eins og afgreiðsla ferjunnar að öðru leyti. Hún hófst fljótlega eftir komu hennar klukkan níu og var að mestu lokið rétt fyrir hádegi.

Stefnt er að því að senda sýnatökuteymi til móts við Norrænu í Hirtshals í Danmörku fyrir næstu ferð hennar. Þá er ferjan komin á sumaráætlun og liggur einungis í tvo og hálfan tíma við festar á Seyðisfirði en rétt um einn og hálfan sólarhring núna. Þessi stutti tími gerir sýnatöku um borð í skipinu í höfn mjög erfiða. Þá er gert ráð fyrir fjölgun farþega um borð og því verið að leita leiða til að auðvelda sýnatöku