27 Júní 2020 14:46

Samkvæmt upplýsingum frá sóttvarnalækni eru um þrjú hundruð manns víðsvegar af landinu í sóttkví sökum smits er greindist nýlega á höfuðborgarsvæðinu. Afleiðingarnar teygja sig víða og í dag eru níu þeirra búsettir eða dvelja hér í fjórðungnum. Allir hafa þeir farið í sýnatöku og ættu niðurstöður um smit að liggja fyrir síðar í dag.

Það er ekki nýmæli að einstaklingar séu hér í sóttkví né heldur teljast það sérstök tíðindi enda smit verið fá. Aðgerðastjórn sér þessa nýju stöðu þó sem alvarlega samfélagslega áminningu um að faraldurinn er ekki horfinn og að brýnt sé að við öll saman herðum tökin í baráttunni við COVID-19. Því minnum við einstaklinga, veitinga- og gistihúsaeigendur, félagasamtök, íþróttafélög, fyrirtæki, þjónustuaðila og aðra á  að líta í eigin barm og meta hvort hjá viðkomandi sé enn rétt staðið að sóttvörnum. Í því sambandi má nefna;

–           held ég mig heima ef ég er með einkennin umtöluðu?
–           veiti ég mér og öðrum rými til að virða 2 m regluna?
–           nota ég handþvott og spritt af árvekni?
–           eru sprittbrúsar til taks og á þá fyllt ?
–           er strokið af sameiginlegum snertiflötum?
–           stend ég fyrir samkomuhaldi þ.á.m. íþróttaviðburðum sem hugsanlega er rétt að aflýsa?

Aðgerðastjórn mun í ljósi aðstæðna og á meðan óljóst er hvert stefnir, senda að nýju daglegar tilkynningar til upplýsinga og ábendinga um aðgerðir, leiðbeiningar og svo framvegis.

Verum SAMAN í þessu hér eftir sem hingað til !