15 Júlí 2020 12:30

Um 730 farþegar koma með Norrænu til Seyðisfjarðar á morgun, fimmtudaginn 16. júlí. Sýnataka af farþegum fór fram í Hirtshals í Danmörk áður en skipið hélt þaðan á þriðjudag. Hún er gerð fyrir sóttvarnayfirvöld í Færeyjum en sýnin greind í Danmörku. Niðurstaða liggur því fyrir áður en komið er til hafnar í Færeyjum.

Þetta þýðir meðal annars að allir sem koma hingað til lands með Norrænu frá Færeyjum hafa áður farið í sýnatöku og fengið niðurstöðu.

Breytingar er taka gildi á morgun um að farþegar frá Noregi, Danmörku, Finnlandi og Þýskalandi auk Færeyja og Grænlands þurfi ekki að sæta sóttkví eða skimun, höfðu því ekki áhrif á sýnatöku þeirra sem nú eru um borð í Norrænu.

Einn þeirra farþega er fór í sýnatöku í Hirtshals reyndist með jákvætt sýni. Óvíst er hvort það er gamalt en viðkomandi ber ekki einkenni smits. Með honum í för voru fimm aðrir og eru allir í einangrun um borð. Frekari sýni munu tekin við komu hingað til lands til að staðfesta niðurstöður. Þeir munu í einangrun hér á landi meðan niðurstöðu er beðið. Aðrir farþegar um borð eru ekki taldir útsettir og munu því ekki verða fyrir áhrifum vegna þessa.

Heimkomusmitgát

Aðgerðastjórn á Austurlandi vekur athygli á að frá 13. júlí tóku gildi reglur fyrir Íslendinga og þá sem búsettir eru hér á landi um svokallaða heimkomusmitgát. Í því felst að sá sem kemur erlendis frá fer í sýnatöku við komu og svo aftur fimm dögum síðar.

Viðkomandi skal í millitíðinni gæta að –

  • því að fara ekki á mannamót eða í veislur þar sem fleiri en tíu manns eru saman komnir,
  • vera ekki í samneyti við fólk sem er í aukinni áhættu fyrir alvarleg veikindi/viðkvæma hópa,
  • tveggja metra reglunni í samskiptum við aðra,
  • því að heilsa ekki með handabandi og forðast faðmlög og
  • því að huga vel að einstaklingsbundnum sóttvörnum.

Heimilt er, meðan smitgátin varir að –

  • nota almenningssamgöngur til að komast á áfangastað,
  • fara í bíltúra,
  • fara í búðarferðir og
  • hitta vini og kunningja með ofangreindum takmörkunum.

Þó þessar reglur nái eingöngu til íslenskra ríkisborgara og þeirra sem búsettir eru hér á landi eru fjölskyldur þeirra og aðrir sem hafa víðfemt tengslanet á Íslandi hvattir til að fylgja sömu reglum.