28 September 2020 11:15

Í gær, sunnudag, greindist COVID-19 smit hjá skipverjum á línuskipinu Valdimar GK. Síðasta höfn skipsins var á Djúpavogi þriðjudaginn 22. sept. Einhverjir skipverja fóru  þá í land.

Um leið og smit greindist um borð fór smitrakning í gang á Djúpavogi og eru tveir einstaklingar þar nú í sóttkví. Hvorugur er með einkenni smits.

Aðgerðastjórn á Austurlandi hvetur af þessum sökum íbúa á Djúpavogi til að gæta sérstaklega að smitvörnum næstu viku og vera vakandi fyrir einkennum. Verði einkenna vart að halda sig heima og hringja í heilsugæsluna eða síma 1700 til að fá leiðbeiningar s.s. um þörf á sýnatöku. Viðkvæmur tími fer nú í hönd en veikindi geta komið fram allt að hálfum mánuði frá smiti. Mikilvægt er að gæta fjarlægðar í þann tíma eða til þriðjudagsins 6. október að minnsta kosti, muna handþvottinn og að spritta snertifleti.

Miðað við tímann sem þegar hefur liðið án smits standa vonir til að ekkert smit hafi borist í land. Enn getur þó brugðið til beggja vona og mikilvægt að íbúar í sameiningu treysti varnirnar líkt og gert hefur verið til þessa.