8 Október 2020 13:50

Einn er enn í einangrun á Austurlandi vegna COVID smits.

Aðgerðastjórn vekur athygli á mikilvægi þess að fylgja tilmælum sóttvarnaryfirvalda og ferðast ekki að nauðsynjalausu til höfuðborgarsvæðisins. Sé ekki frá því vikist er hvatt til aðgæslu meðan á dvöl stendur, að halda sig frá margmenni, nota grímu þar sem það á við og hanska, muna handþvottinn og sprittnotkun.

Að sama skapi eru þeir sem koma frá höfuðborgarsvæðinu hvattir til að gæta sérstaklega að sér. Aðgerðastjórn áréttar að mestar líkur eru á að veikindi komi fram innan sjö daga frá smiti. Það er því sá tími sem mest á reynir að við gætum að einkennum veikinda, förum varlega gagnvart öðrum, að við höldum fjarlægð eins og hægt er og notum grímu í aðstæðum þar sem erfitt er að tryggja og virða fjarlægðarmörk.  Meðgöngutími smits er allt að fjórtán dagar.

Það er mikils um vert að vel takist til í smitvörnum fyrir fjórðunginn en ekki síður fyrir landsmenn alla að dreifing veirunnar sé sem minnst. Þannig verður auðveldara að takast á við hana. Ábyrgð okkar er því mikil.

Við þekkjum öll til veirunnar, við þekkjum smitleiðir, við þekkjum áhættuþættina, við vitum af því óveðri sem geysar á höfuðborgarsvæðinu, við þekkjum stöðuna hér og við þekkjum meðgöngutíma smits. Högum okkur, og gerum það saman, í samræmi við þessa vitneskju og beitum góðri dómgreind hvert og eitt okkar. Með hana í farteskinu eru okkur allir vegir færir.

Gætum að okkur hvert og eitt ásamt þeim sem við umgöngumst og komumst þannig í gegnum þetta saman.