20 Júlí 2021 16:25

Eins og fram hefur komið í máli Þórólfs sóttvarnalæknis „Ný bylgja hafin og jafnvel á leið í veldisvöxt – Vísir (visir.is)“ þá er mikill vöxtur í fjölda smitaðra af kórónuveirunni hér innanlands. Aðgerðastjórn er kunnugt um að tveir einstaklingar á Austurlandi eru með nýgreint smit og eru þau til frekari skoðunar gagnvart smithættu og -rakningu. Mikill fjöldi er á Austurlandi, tjaldstæði þétt setin og stórar bæjarhátíðir á dagskrá næstu helgi og þetta kallar á aðgát allra sem að þeim koma og þar verða.

Aðgerðastjórn vill árétta að nú skiptir gífurlega miklu máli að við stöndum saman og hjálpumst að við að halda persónubundnar sóttvarnir. Þar ber helst að nefna handþvott og spritt eins og við þekkjum öll en einnig skiptir máli að vera vel vakandi fyrir einkennum sem geta bent til kórónuveirusmits. Þau einkenni geta verið hálssærindi, kvef, hiti, beinverkir, skert bragð-/lyktarskyn eða niðurgangur en einnig getur fólk verið einkennalítið. Aðgerðastjórn vill því hvetja alla til að fara í sýnatöku ef minnsti grunur leikur á smiti. Þá skiptir líka máli að við höldum okkur til hlés á meðan einkenni ganga yfir. Aðgerðastjórn vill minna rekstraraðila verslana, veitingastaða og annarra samkomustaða á að hafa gott aðgengi að sótthreinsivökva.

Einnig vill aðgerðastjórn árétta að nú skiptir miklu máli að allir þeir sem eru með öndunarfæraeinkenni eða kvef séu í sambandi við heilsugæslustöðvar símleiðis þar sem staðan er metin nánar. Alls ekki mæta á heilsugæslustöðvar með slík einkenni ef minnsti grunur leikur á kórónuveirusmiti. Nú þurfa allir að hjálpast að við að vernda þá innviði sem við höfum og varna því að smit berist inn á heilbrigðisstofnanir.

Með samstilltu átaki þá komumst við í gegnum þetta saman.