10 Apríl 2021 15:23

Súrálsskip það sem kom í Mjóeyrarhöfn á Reyðarfirði þann 20. mars síðastliðinn með tíu smitaða af nítján manna áhöfn hélt í dag kl. 14 til hafs á ný.  Sótthreinsun skipsins fór fram í gær en áður voru allir skipverjar útskrifaðir úr sóttkví og einangrun. Þeir eru við góða heilsu og allir um borð við brottför skipsins.

Það verkefni að fyrirbyggja frekara smit eftir komu skipsins til hafnar á Reyðarfirði var ærið. Má þar nefna skipverjana sjálfa er sinntu óaðfinnanlega smitvörnum um borð, umboðsmanni skipsins sem var tilbúinn hvenær sem var að veita liðsinni og útvega bjargir, hafnarstarfs- og björgunarsveitarmönnum í Fjarðabyggð er sáu um gæslu og ekki síst hafnsögumönnum við komu og brottför skipsins, sjúkraflutningamönnum og öðrum heilbrigðisstarfsmönnum er skipulögðu og sáu um flutning og móttöku eins skipverja á Landspítala er þurfti sérstakrar umönnunar við og Heilbrigðisstofnun Austurlands er hafði með stjórnun verkefnisins að gera. Sér aðgerðastjórn ástæðu til að senda þessum og öðrum er að komu sérstakt hrós fyrir þá vinnu sem þarna var unnin. Vel gert.

Norræna kom á miðvikudag og þáðu fjórir farþegar frá svokölluðum rauðum svæðum gistingu í sóttvarnarhúsi á Hótel Hallormsstað. Fimm aðrir sem einnig komu af rauðum svæðum voru með gistingu á eigin vegum. Allir farþeganna 38 voru skimaðir við komu. Þeirra bíður fimm daga sóttkví og sýnataka að nýju að þeim liðnum. Niðurstöður fyrri sýnatöku liggja fyrir og voru allar neikvæðar. Farþegar fá í öllum tilfellum skriflegar og munnlegar leiðbeiningar við komu til landsins um það hvernig haga skuli sóttkví. Smávægileg vandamál hafa engu að síður komið upp gegnum tíðina og þau verið leyst jafnóðum. Ekki hefur komið til þess að þurft hafi að beita viðurlögum nema í undantekningartilfellum.

Ný reglugerð heilbrigðisráðherra tók gildi í gær. Helstu breytingar lúta að sóttvarnarhúsum, sóttkví og einangrun. Stjórnarráðið | COVID-19: Aðgerðir á landamærum – breytt skilyrði um dvöl í sóttkví (stjornarradid.is)

Breytingar þessar ættu ekki að hafa mikil áhrif í fjórðungnum enda snúa þær helst að ferðamönnum er koma erlendis frá. Með persónubundnum sóttvörnum gerum við okkar sem fyrr til að koma í veg fyrir smit og treystum okkar ágætu gestum til hins sama. Áfram við.