11 Apríl 2007 12:00

Fréttatilkynning  Nr. 3/2007

Embætti ríkislögreglustjóra hefur á grundvelli samstarfssamnings við Umferðarstofu f.h. samgönguráðherra falið tilteknum lögregluembættum að hafa samvinnu um sérstaklega aukið umferðareftirlit. Að lokinni sameiningu og stækkun lögregluembætta sem tók gildi 1. janúar sl. eru lögregluembætti mun betur í stakk búin að framkvæma víðtækt umferðareftirlit. Um páskahelgina höfðu lögreglumenn afskipti af mörg þúsund ökumönnum þar sem m.a. var sérstaklega tekið á ölvunar- og fíkniefnaakstri, hraðakstri og farið yfir ástand ökutækja almennt. Helsta markmið þessa stóraukna eftirlits lögreglu með umferð er að fækka verulega alvarlegum umferðarslysum og auka öryggi hins almenna borgara á vegum landsins. Engin alvarleg umferðarslys áttu sér stað um páskahelgina.

Bent er á umferðareftirliti lögreglu verður haldið áfram með markvissum hætti á næstu mánuðum og mega ökumenn búast við miklu og öflugu umferðareftirliti lögreglu enda meðal forgangsverkefna hennar að auka öryggi vegfaranda á vegum landsins.

Embætti ríkislögreglustjóra þakkar lögreglumönnum fyrir vel unnin störf yfir páskahelgina og vonast til þess að aukin vinna þeirra við umferðareftirlit skili áfram góðum árangri. Ökumenn eru hvattir til að sína tilhlýðilega ábyrgð í umferðinni og koma þannig í veg fyrir afskipti lögreglu.

Nánari upplýsingar veitir Páll E. Winkel, í síma 570-2500 eða í tölvupósti pw@rls.is