10 Júlí 2007 12:00

            Dagana 6.- 8. júlí sl. fór fram bæjarhátíðin Írskir dagar á Akranesi  og var margmenni á hátíðinni. Lögreglan á Akranesi  stóð að skipulagi löggæsluþáttarins en á hann reyndi verulega á meðan á hátíðinni stóð. Lögreglan á Akranesi naut aðstoðar frá ríkislögreglustjóraembættinu og lögregluliðunum á höfuðborgarsvæðinu, Stykkishólmi og Borgarnesi. Miklar annir urðu hjá lögreglu vegna fjölda tilvika sem upp komu en mest bar á slagsmálum, fíkniefnamálum og akstri undir áhrifum fíkniefna og áfengis auk þess að mikil vinna skapaðist við sjóslys fyrir utan Akraneshöfn aðfaranótt laugardagsins.

            Sá samhenti hópur lögreglumanna sem vann við löggæslustörf á Akranesi á Írskum dögum stóð sig með mikilli prýði og sinnti störfum sínum af ósérhlífni við erfiðar aðstæður. Lögreglustjórinn á Akranesi þakkar þeim  fyrir vel unnin störf og þakkar að auki ríkislögreglustjóraembættinu og lögreglustjórunum á höfuðborgarsvæðinu, í Borgarnesi og Stykkishólmi fyrir veitta aðstoð þeirra manna.

            Þrátt fyrir að hátíðinni sé lokið þá er mikil vinna lögregu eftir við úrvinnslu þeirra fjölmörgu opinberu mála sem upp komu. Sú vinna er hafin og verður þess að vænta að þau mál verði til lykta leidd fljótlega með viðurlögum í formi sektargerða og dóma.

Að auki þarf  að skoða fyrirkomulag bæjarhátíðarinnar Írskir dagar í ljósi reynslu liðinnar helgar.

                                                Sýslumaðurinn á  Akranesi,

                                                Ólafur þ. Hauksson.