20 Október 2008 12:00

Að undanförnu hefur borið á því að erlendir ríkisborgarar sem flytja frá Íslandi hafi tekið með sér bifreiðar sem þeir hafa haft á kaupleigusamningi. Slík háttsemi getur varðað við auðgunarbrotakafla hegningarlaga.

Í liðinni viku leitaði fjármögnarfyrirtæki til alþjóðadeildar ríkislögreglustjóra eftir að hafa komist að því að nýlegar bifreiðar í eigu fyrirtækisins voru um borð í Norrænu á leið til Noregs og Danmerkur. Alþjóðadeild tókst í samvinnu við norska ríkislögreglustjórann, lögregluna í Bergen og skipstjóra Norrænu að koma í veg fyrir að bifreiðarnar gengju eigendum sínum úr greipum. Bifreiðarnar verða sendar aftur til Íslands með Norrænu.

Ríkislögreglustjóri hefur hvatt lögreglu- og tollstjóra til að auka eftirlit með málum sem þessum.

Ríkislögreglustjórinn, 20. október 2008