15 Mars 2018 08:56
Afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir febrúarmánuð 2018 hefur verið birt. Í skýrslunni eru teknar saman upplýsingar um helstu afbrot sem hafa verið tilkynnt til lögreglu. Fjallað er um þróunina á síðustu 13 mánuðum og tölur það sem af er ári bornar saman við sama tímabil síðustu þriggja ára.
Í febrúar voru 646 hegningarlagabrot tilkynnt lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Skráður fjöldi tilkynninga var nokkuð undir meðalfjölda síðustu sex og síðustu 12 mánaða á undan. Auk hegningarlagabrota fækkaði skráðum þjófnaðarbrotum, meiriháttar eignaspjöllum, fíkniefnabrotum og akstri undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Það sem af er ári hafa þó verið skráð um 77 prósent fleiri brot vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna en höfðu verið skráð að meðaltali fyrstu tvo mánuði áranna 2015 til 2017. Tilkynningum um innbrot fjölgaði nokkuð í febrúar miðað við síðustu 12 mánuði á undan og þar af fjölgaði innbrotum á heimili eða einkalóðir mikið. Skráðar voru 52 tilkynningar þar sem brotist var inn á heimili eða einkalóðir (þar af nýbyggingar, bílskúra o.þ.h.) í febrúar. Ekki hafa borist jafn margar tilkynningar um innbrot á heimili eða einkalóðir frá því í desember árið 2012 þegar bárust 53 tilkynningar. Rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á þessum brotum miðar vel. Hér má lesa nánar um rannsókn lögreglu.