4 September 2015 11:47

Til þeirra er hlut kunna að eiga að máli varðandi
flug ómannaðra loftfara á Ljósanótt 2015:

Borizt hefur í dag ósk frá Öryggisnefnd Ljósanætur og einnig alvarleg ábending frá manni sem vel þekkir til notkunar ómannaðra flygilda, sem einnig ganga undir heitinu ,,drónar“. Þessi ómönnuðu flygildi geta tvímælalaust gagnast vel sem hjálpartæki við margvísleg störf og þar á meðal við leit og björgun.

Bent hefur verið á að umrædd flygildi kunni að bila og nefnd hafa verið dæmi þess og einnig að stjórnendur á jörðu niðri hafi tapað stjórn slíkra tækja og þau flogið út í buskann. Ákveðnar reglur gilda um loftför samkvæmt lögum um loftferðir nr. 60/1998. Í þeim er ekki að finna sérstök ákvæði um þá nýbreytni sem felst í þeirri tækni sem ómönnuð loftför byggja á eða flug þeirra almennt.

Í 4. grein nefndra laga er hins vegar að finna heimildarákvæði sem gerir ráðherra, nú væntanlega innanríkisráðherra, að takmarka eða banna loftferðir almennt eða að hluta á íslensku yfirráðasvæði eða yfir því vegna almannaöryggis eða allsherjarreglu. Heimildin er bundin við ráðherra.

Með vísan til framkominnar óskar og þess að mikilvægt er að gæta öryggis almennra borgara og einnig með vísan til lögreglulaga nr. 90/1996, 1. greinar þeirra sem fjallar um hlutverk lögreglu, einkum 2. töluliðar, a. liðar um gæzlu almannaöryggis og b. liðar, en þar er fjallað um öryggi borgaranna og að lögregla skuli koma í veg fyrir að því sé raskað, eru það eindregin tilmæli lögreglustjóra að flug ómannaðra loftfara eða flygilda hvers konar, sem ganga undir nafninu drónar verði ekki yfir byggð eða þar sem mannfjöldi er samankominn á Ljósanæturhátíð í Reykjanesbæ.

Reykjanesbæ, 2. september 2015.

Ólafur Helgi Kjartansson
lögreglustjóri

Sjá meira