17 Apríl 2008 12:00

Um kl. 19:00 í gær miðvikudag fékk kona í Árnessýslu upphringingu í heimasíma sinn.  Í símanum var kona sem talaði mjög skýra ensku.  Sú sem hringdi skýrði þeirri sem svaraði að hún hefði unnið ferðalag og tilgreindi áfangastað og gaf upp trúverðugar vísbendingar um hvernig konan gæti kynnt sér það sem þetta snérist allt um.  Að því loknu hljómaði karlmannsrödd í símanum, einnig á skýrri ensku.  Hann þuldi upp uplýsingar um konuna heimili og síma og spurði hvort það væri rétt.  Konan staðfesti þetta.  Þá las hann upp fjórar síðustu tölur í kortanúmeri og spurði hvort það væri ekki réttar tölur í Masterkorti hennar.  Hún staðfesti að svo væri.  Þá bað karlmaðurinn hana um að lesa upp kortanúmerið til að staðfesta hvort þeir væru með réttar upplýsingar.  Konan las upp kortanúmerið.  Að því loknu kom þriðji aðili inni í símtalið og sá talaði líka ensku.  Sá lét konuna vita að samtalið væri hljóðritað.  Að því loknu spurði hann hvort hún hefði ekki alveg skilið það sem áður var sagt við hana og skýrði fyrir henni að vinningurinn væri fólginn í niðurgreiðslu á ferð og að hennar hlutur væri 989 dollarar sem yrðu teknir af kortareikningi hennar.  Þar með lauk símtalinu.  Strax að því loknu áttaði konan sig á því að ekki væri allt með felldu og hafði samband við kortafyrirtæki sitt og lét loka kortinu.  Af þessu þykir ljóst að óprútnir aðilar hafi á þennan hátt ætlað að svíkja fé útaf reikningi konunnar.  Hugsanlegt er að þeir hafi komist yfir kortakvittun konunnar.  Fólk sem fær símhringingar með tilkynningar um að það hafi unnið í einhvers konar happdrættum ætti að hafa allan varan á.