27 Desember 2016 14:32

Kl 08:46 þann 20. desember var lögregla og slökkvilið kallað að íbúð í fjölbýlishúsi á Patreksfirði. En þar hafði viknað eldur. Slökkvilið var fljótt að slökkva eldinn, sem var í einu rými íbúðarinnar. Einn íbúi var fluttur á sjúkrahúsið á Patreksfirði til skoðunar en grunur var um að sá hafi orðið fyrir reykeitrun. Viðkomandi var fljótur að jafna sig. Tildrög þessa eru til rannsóknar hjá lögreglunni á Vestfjörðum. Tjón var óverulegt.

Einn ökumaður var kærður þann 22. desember vegna gruns um að vera undir áhrifum fíkniefna. Sá var í akstri innanbæjar á Hólmavík. Annar ökumaður var kærður fyrir að vera undir áhrifum áfengis. Það var aðfaranótt 27. desember í Hnífsdal.

Höfð voru afskipti af ökumanni fólksbifreiðar í vikunni en ástæðan voru bláar petur í aðalljósum. Slíkt er bannað lögum samkvæmt. Ökumanninum var gert að skipta um perur strax.

Tveir ökumenn voru kærðir í liðinni viku fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða. Báðir voru þeir í akstri á Djúpvegi.

Einn ökumaður var kærður í vikunni fyrir að tala í farsíma án handfrjáls búnaðar. Þetta var á Patreksfirði.

Síðastliðna nótt, raunar undir morgun, var tilkynnt um líkamsárás, utandyra á Ísafirði. Sá er fyrir árásinni varð var fluttur á sjúkrahúsið á Ísafirði til aðhlynningar og var útskrifaður fljótlega. Málið er til rannsóknar hjá lögreglunni á Vestfjörðum.

Tilkynnt var um fjögur umferðaróhöpp í liðinni viku. Eitt þeirra varð í Ísafjarðardjúpi þegar hjól fór undan jeppabifreið. Bifreiðin fór ekki út af veginum og engin slys urðu á ökumanni eða farþegum. Síðdegis þann 21. desember missti ökumaður stjórn á jeppabifreið á Gemlufallsheiði með þeim afleiðingum að bifreiðin rann út af veginum og valt nokkrar veltur. Ásamt ökumanni voru tvö börn í bifreiðinni. Engann sakaði enda allir spenntir í öryggisbelti og yngra barnið í öruggum bílstól. Lögreglumenn og sjúkraflutningamenn sem komu á staðinn voru sammála um að öryggisbúnaðurinn (bílbelti og barnabílstóll) sannað gildi sitt.

Snemma morguns þann 22. desember varð árekstur við gatnamótin á Skeiði, skammt frá versluninni Bónus. Þar var sendibifreið ekið í veg fyrir jeppabifreið sem ekið var eftir Skutulsfjarðarbraut og skullu bifreiðarnar saman. Engin slys urðu á vegfarendum en jeppabifreiðin var óökufær eftir óhappið. Svo vildi til að lögreglumenn voru í eftirliti skammt frá og urðu vitni að óhappinu. Sá sem ók í veg fyrir jeppabifreiðina virti ekki skyldu sína, en umferð um Skutulsfjarðarbraut hefur forgang eins og umferðarskilti á gatnamótunum segja til um. Ökumaður sá má búast við sekt vegna þessa brots.

Um hádegisbilið þann 26. desember missti ökumaður stjórn á bifreið sinni skammt frá bænum Arnardal á Arnarnesi. Bifreiðin rann út af veginum og fór nokkrar veltur áður en hún staðnæmdist í fjörunni. Ökumaður, sem var einsamall í bifreiðinni, hlaut ekki meiðsl og komst að sjálfsdáðum út úr bifreiðinni og upp á veginn. Bifreiðin er talin ónýt. Akstursskilyrði voru slæm þegar öll þessi óhöpp urðu og mikilvægt er að ökumenn aki með mikilli gát þegar slíkt er.

Á jóladag, þann 25. desember kl.18:00, var veginum milli Ísafjarðar og Súðavíkur lokað fyrir allri umferð. Ástæðan var hætta á flóðum úr hlíðum ofan vegarins, skv. mati snjóflóðaeftirlits Veðurstofu Íslands. Leiðin var opnuð á ný strax í birtingu daginn eftir enda hættan talin liðin hjá. Eitt snjóflóð hafði fallið á veginn um Súðavíkurhlið eftir að veginum var lokað.

Íbúar og vegfarendur á Vestfjörðum, sem hyggjast leggja í langferðir, eru hvattir til að fylgjast vel með veðurspá og færð á vegum. Þær upplýsingar er hægt að fá í síma Vegagerðarinnar, 1777, eins á vef Vegagerðarinnar sem er á slóðinni
Vefur Veðurstofu Íslands er á þessari slóð : http://www.vedur.is/
Þá reynir lögreglan á Vestfjörðum að færa inn á facebooksíðu þessa nauðsynlegar upplýsingar m.a. um fyrirhugaðar lokanir vegakafla af öryggisástæðum.