28 Júlí 2008 12:00

Um kl. 11:20 í morgun fékk lögreglan á Selfossi tilkynningu um að mótmælendur hefðu komið sér fyrir á jarðbornum Tý á Skarðsmýrarfjalli. Fylgdi sögunni að það hefðu farið inn á svæðið og drepið á vélum þannig að vinna við borinn stöðvaðist. Lögregla á Selfossi, sérsveit ríkislögreglustjóra og lögregla höfuðborgarsvæðisins fóru á vettvang og voru mótmælendum gefin fyrirmæli um að fara af vinnusvæðinu. Flestir hlýddu því en þó voru sjö manns handteknir, fjórir karlar og þrjár konur, en þau hlýddu ekki ítrekuðum fyrirmælum lögreglu um að fara af vinnusvæðinu. Tveir þeirra handteknu höfðust við á bornum sjálfum en fimm stöðvuðu vinnu á vélskóflu við borplanið.

Sjömenningarnir voru færðir í fangaklefa á Selfossi og eru yfirheyrslur yfir þeim að hefjast en reiknað er með að þær standi fram á kvöld enda þarf að útvega túlka til að túlka fyrir hvern á sínu tungumáli og einnig lögmenn til að gæta hagsmuna þeirra við skýrslutöku. Brot þeirra eru talin varða m.a. 19. gr. lögreglulaga nr. 90/1996

Fjárhagslegt tjón af aðgerðinni er töluvert enda um að ræða stöðvun á heilum jarðbor með tilheyrandi vandamálum.

Einstaklingarnir sem handteknir voru eru frá Bretlandi, Bandaríkjunum, Belgíu, Danmörk, Hollandi og Svíþjóð.