20 Febrúar 2013 12:00

Tjónakostnaður lögregluökutækja minnkaði til mikilla muna á árinu 2012, að því er fram kemur í nýrri skýrslu starfshóps ríkislögreglustjóra.  Fækkun tjóna er einkum rakin til þess að akstur ökutækja lögreglunnar hefur dregist verulega saman en að auki er það mat starfshópsins að námskeið, aukið aðhald og bættur öryggisbúnaður hafi skilað tilætluðum árangri.

Á árinu 2012 voru skráð 33 tjón á lögreglubifreiðum hér á landi. Fjárhæð þessara tjóna var alls 4.646.475 krónur. Tjónum hefur fækkað mjög á undanliðnum árum. Þannig voru þau alls 168 árið 2008, 108 árið eftir, 96 árið 2010 og 80 árið 2011. Tjónakostnaður hefur að sama skapi minnkað. Hann var rúmar 13 milljónir árið 2008, tæpar 5,4 milljónir árið eftir, um 8,3 milljónir 2010 og rúmar 7,3 milljónir árið 2011.

Þann 22. janúar 2008 skipaði Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri starfshóp til að hafa eftirlit með öllu því er varðar ökutæki lögreglunnar og tækjabúnað. Umboð ríkislögreglustjóra er víðtækt og er ekki takmarkað við tiltekin tæki eða einstakan búnað öðrum fremur. 

Starfshópurinn kom reglulega saman  á árinu 2012 og fjallaði um þau tilvik þegar upplýst var um tjón á ökutækjum og búnaði lögreglunnar og voru öll málin afgreidd í samræmi við verklagsreglur hópsins.

Minni akstur – færri tjón

Starfshópur ríkislögreglustjóra telur að mikla fækkun tjóna á síðustu árum megi einkum rekja til þess að akstur ökutækja lögreglu hefur dregist verulega saman frá hruni íslenska fjármálakerfisins haustið 2008. Þá telur hópurinn að námskeið í forgangsakstri skili betra vinnulagi og breyttu hugarfari. Einnig er í skýrslu hópsins nefnt að aukinn öryggisbúnaður á lögregluökutækjum lágmarki skemmdir. Loks er tiltekið að aukið aðhald frá starfshópi ríkislögreglustjóra og samvinna hópsins við lögreglustjóra í landinu hafi orðið til að draga úr tjónum.

Hvað akstur lögregluökutækja varðar liggur fyrir að hann hefur dregist saman um 29% frá árinu 2008. Það ár voru alls eknir 5.137.000 km. en í fyrra var lögregluökutækjum alls ekið 3.942.515 km.  Hæstur var tjónakostnaður hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, 2.351.863 krónur enda notkunin þar mest eða 1.357.251 km. Næst kom Lögreglan á Vestfjörðum. Þar nam tjónakostnaður alls 1.459.711 krónum  en lagðir voru að baki 120.775 km.

Lögreglan í landinu hefur til umráða um 145 ökutæki og hefur þeim fækkað um 15 undanfarin ár.

Tíu nýjar bifreiðar pantaðar

Á árinu 2012 voru pantaðar 10 nýjar lögreglubifreiðar sem teknar verða í notkun hjá sjö lögregluliðum, en á undanförnum árum hefur ríkislögreglustjóri keypt um 15 lögreglubifreiðar á hverju ári. Fjórar bifreiðar fara til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og ein lögreglubifreið til lögreglustjórans á Akranesi, Stykkishólmi, Seyðisfirði, Hvolsvelli, Selfossi og til lögreglustjórans á Suðurnesjum.

Niðurskurður í fjárveitingum til lögreglunnar hefur haft þau áhrif að dregið hefur verið úr endurnýjun lögreglubifreiða og akstur hefur minnkað. Að auki hefur umtalsverð hækkun á bifreiðaverði og öðrum kostnaði við standsetningu lögreglubifreiða haft þau áhrif að nýkaup hafa dregist saman.

Flest tjón við venjubundið eftirlit

Flest tjón á ökutækjum lögreglunnar verða þegar lögreglumenn sinna venjulegu löggæslueftirliti.  Má því í mörgum tilfellum flokka tjónin undir óvarkárni ökumanna þegar ekið er utan í hluti eða á önnur ökutæki og skemmdir verða á undirvagni af hraðahindrunum og kantsteinum. Starfshópurinn hefur sent lögreglustjórum viðkomandi umdæma upplýsingar um hraða og akstur ökutækjanna þar sem þessi tjón hafa orðið og hefur viðkomandi embætti tekið á þeim málum og afgreitt þau á faglegan hátt.  Ríkislögreglustjóri gerir í öllum tilvikum bótakröfur á tjónvald þegar skemmdarverk eru unnin á ökutækjum lögreglunnar. Nokkur slík tilvik voru á árinu og þar á meðal tjónakostnaðurinn hjá lögreglunni á Vestfjörðum og því lækkar tjónsupphæðin.