9 Júlí 2005 12:00

Lögreglan í Vestmannaeyjum handtók tvítugan mann með fíkniefni í fórum sínum við komu Herjólfs til Vestmannaeyja í gærkvöldi þar sem lögregla viðhafði reglubundið eftirlit. Við leit í bifreið mannsins fundust fíkniefni með aðstoð fíkniefnaleitarhunds. Efnin voru falin víðsvegar í bifreiðinni og eru talin vera u.þ.b. 400 gr. af hassi, 10 gr. af amfetamíni og 6 gr. af kókaíni. Við frekari rannsókn málsins lagði lögregla einnig hald á 50 e-töflur og rúmlega 20 gr. af amfetamíni. Maðurinn er grunaður um að hafa ætlað efnin til sölu, hann er enn í haldi lögreglu og rannsókn málsins í fullum gangi.

Lögreglan í Vestmannaeyjum leggur nú ríkari áherslu á eftirlit með fíkniefnum vegna fyrirhugaðrar þjóðhátíðar um verslunarmannahelgina.