29 Ágúst 2013 12:00

Á laugardaginn nk. fara fram stórtónleikar á Vífilstaðatúni en lokað verður fyrir alla umferð kringum tónleikasvæðið sjálft. Engin bílastæði verða við tónleikasvæðið en tíðar strætisvagnaferðir verða til og frá tónleikastað frá bílastæðum við Kauptún en einnig verða ferðir frá skiptistöð Strætó í Mjódd og Ásgarð í Garðabæ.

Reykjanesbraut verður lokuð vegna viðburðarins frá kl.19 frá Kauptúni að Arnarnesvegi en síðan kl.21 verður Reykjanesbraut lokuð frá Fjarðarhrauni að Arnarnesvegi.  Auk þessa verður Vífilstaðavegur, Vatnsnendavegur og Elliðavatnsvegur allir lokaðir, en nánari útlistun má sjá á meðfylgjandi mynd hér að neðan.

Mjög mikilvægt er að fólk virði allar lokanir enda verður mikið um fótgangandi gesti á svæðinu.

Túnið opnar fyrir gestum kl.17 en tónleikar byrja kl.18 og standa til kl.22.

Við minnum foreldra góðfúslega á að muna eftir útivistartímum og skemmta sér með börnunum sínum til að koma í veg fyrir unglingadrykkju.

Aðalbílastæði tónleikanna verður á Kauptúnssvæðinu í Garðabæ þar sem meðal annars IKEA er til húsa en engin almenn bílaumferð verður leyfð í kringum Vífilsstaði og þar verða engin bílastæði.Frá Kauptúnssvæðinu býður Garðabær upp á FRÍAR ferðir með Strætó til og frá Vífilsstaðatúni allan tímann sem dagskrá er í gangi og eftir að tónleikum lýkur. Ferðirnar hefjast frá Kauptúnssvæðinu kl. 17:00 og er einungis um 5 mínútna ferðalag með Strætó að ræða.

Frá skiptistöð Strætó í Mjódinni býður Garðabær einnig upp á FRÍAR ferðir með Strætó til og frá Vífilsstaðatúni allan tímann sem dagskrá er í gangi og eftir að tónleikum lýkur. Ferðirnar hefjast frá Mjóddinni kl. 17:00 og er einungis um 10 mínútna ferðalag með Strætó að ræða. Frá Ásgarði býður Garðabær upp á FRÍAR ferðir með Strætó til og frá Vífilsstaðatúni allan tímann sem dagskrá er í gangi og eftir að tónleikum lýkur. Ferðirnar hefjast frá Ásgarði kl. 17:00 og tekur um 10 mínútur. Tónleikagestir hafa einnig aðgang að bílastæðum í Molduhrauni í Garðabæ, þar sem meðal annars Marel er til húsa. Ekki verða ferðir með Strætó þaðan og fólki bent á að fara gönguleiðina yfir hraunið og undir Reykjanesbrautina að Vífilsstaðatúni.

Garðbæingar eru sérstaklega hvattir til að nýta sér gönguleiðirnar úr Garðabæ yfir á Vífilsstaðatún.

Bílastæði fyrir fatlaða verða við Vífilsstaði.

Frekari upplýsingar má finna á vef Garðabæjar: http://www.gardabaer.is/forsida/vidburdir/vidburdur/2013/08/31/Stortonleikar-Of-Monsters-and-Men-vid-Vifilsstadi/