30 Maí 2007 12:00
Sunnudagskvöldið 27.maí s.l. hafði læknir á Heilbrigðisstofnun suðurnesja samband við lögreglu og tilkynnti að hjá honum væru tvær tólf ára stúlkur sem hefðu orðið fyrir líkamsárás af þremur eldri stúlkum. Lögregla var send á Heilbrigðisstofnunina til að fá nánari upplýsingar um málið.
Í ljós kom að stúlkurnar tvær sem báðar eru fæddar 1994 voru færðar með valdi upp í bifreið af þremur stúlkum, einni 17 ára og tveimur 15 ára. Óku þær stúlkunum tveimur í yfirgefið hús í Innri-Njarðvík og misþyrmdu þeim og svívirtu. Beittu þær höggum og rifu í hár stúlknanna og hræktu á þær. Einnig voru þær neyddar til að reykja gegn vilja þeirra.
Stúlkurnar þrjár er beittu ofbeldinu voru handteknar skömmu síðar og færðar á lögreglustöðina til yfirheyrslu.
Barnaverndarnefnd var tilkynnt um málið.
Málið er litið mjög alvarlegum augum og er það í rannsókn.
Stúlkurnar tvær sem urðu fyrir ofbeldinu hafa þegar lagt fram kæru í málinu.