12 Október 2004 12:00

Nú nýlega hafa tveir menn greitt sekt hjá lögreglustjóranum á Ísafirði, fyrir að hafa keypt áfengi fyrir ungmenni sem ekki voru komin með aldur til þess.  Um er að ræða tvö óskyld mál, en í báðum tilvikunum var um að ræða ungmenni sem voru börn í skilningi barnaverndarlaga, eða yngri en 18 ára.

Mennirnir hafa greitt hvor um sig 10.000.- kr. sekt vegna þessara brota á áfengislögum.

Lögreglan vill aðvara þá sem hyggjast kaupa áfengi fyrir þau ungmenni sem ekki hafa aldur til meðhöndlunar áfengis.  Áfengislögin, sem eru nr. 75/1998, eru skýr um þetta atriði.  En þar segir eftirfarandi í 18. grein : “Óheimilt er að selja, veita eða afhenda áfengi þeim sem er yngri en 20 ára.”