25 Ágúst 2013 12:00

Rétt yfir klukkan 11:00 í dag var tilkynnt um bifreið sem hafi verið ekið á mikilli ferð eftir Hlíðarbraut og ekið þar á staur með umferðarskiltum en staurinn festist undir bifreiðinni og dró bifreiðin hann þó nokkra vegalengd. Bifreiðin stöðvaði síðan utan vegar á Þingvallastræti við Miðhúsabraut.

Örstuttu síðar hlupu lögreglumenn tvo aðila uppi í nágrenninu og voru þeir aðilar handteknir grunaðir um að hafa verið á bifreiðinni.  Annar var með lítinn hníf í hendinni þegar lögreglumennirnir komu að þeim. Báðir aðilarnir voru í annarlegu ástandi er þeir voru handteknir.

Bifreiðin reyndist vera stolin. Við rannsókn kom í ljós að þessari bifreið hafði verið ekið á ljósastaur í Bugðusíðu skömmu áður, hún var töluvert skemmd ef ekki ónýt eftir þetta.

Nú óskar lögreglan á Akureyri eftir vitnum af þessu atviki og hvetur hvern þann sem hefur einhverjar upplýsingar um þetta mál að hafa samband við lögregluna á Akureyri. Sérstaklega þá sem urðu vitni af því þegar bifreiðinni var ekið út fyrir veg við Þingvallastræti. Upplýsingarsími lögreglunnar á Akureyri er 4647700 en einnig er hægt að senda póst á netfangið akureyri@logreglan.is.