27 Maí 2015 13:33

Tveir karlmenn sitja nú í gæsluvarðhaldi eftir að þeir urðu uppvísir að því að reyna að smygla fíkniefnum innvortis til landsins. Annar mannanna kom til landsins 15. apríl frá Helsinki. Hinn kom tveimur dögum síðar, einnig frá Helsinki. Tollverðir stöðvuðu þá við komuna í Flugstöð Leifs Eiríkssonar vegna gruns um að ekki væri allt með felldu um ferðalag þeirra. Lögreglan á Suðurnesjum færði þá á lögreglustöð.

Sá mannanna sem fyrr kom  til landsins skilaði af sér nokkrum pakkningum sem innihéldu samtals 330 grömm af amfetamíni. Hinn skilaði hluta efnanna, samtals 400 grömmum af kókaíni,  niður  í varðhaldi en síðan þurfti að flytja hann með sjúkrabifreið undir læknishendur í Reykjavík þar sem hann var aðstoðaður við að losa sig við afganginn. Fyrrnefndi maðurinn er á fimmtugsaldri en hinn síðarnefndi á  fertugsaldri.

Rannsókn lögreglunnar á Suðurnesjum á þessum málum er á lokastigi. Ekkert hefur komið fram sem bendir til tengsla milli mannanna tveggja, sem báðir eru erlendis ríkisborgarar.