14 Apríl 2008 12:00

Föstudaginn 11. apríl s.l. fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur aðalmeðferð í máli sem ákæruvaldið höfðaði gegn tveimur nemendum í grunnnámsdeild Lögregluskóla ríkisins, Grím Thor Bollasyni og Arnari Má Jónssyni, fyrir þjófnað. Að auki var Arnar Már ákærður fyrir akstur undir áhrifum áfengis.

Dagmar Ösp Vésteinsdóttir, fulltrúi hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, sótti málið af hálfu ákæruvaldsins, skipaður verjandi Gríms Thor var Jón Höskuldsson, hæstaréttarlögmaður og skipaður verjandi Arnars Más var Arnar Þór Jónsson, héraðsdómslögmaður. Dómari var Símon Sigvaldason, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur.

Það er reyndar ekki svo að hér hafi verið um raunverulega aðalmeðferð að ræða heldur voru þetta lok á verkefnavinnu sem nemendur grunnnámsdeildar Lögregluskóla ríkisins höfðu unnið að frá því um miðjan febrúar s.l.

Vinnan hófst með verklegri æfingu þar sem tilkynnt var til lögreglunnar um yfirstandandi innbrot í íbúð að Krókhálsi 5b í Reykjavík. Vitni að innbrotinu sá tvo menn hlaupa frá húsinu að bifreið sem stóð skammt frá og aka síðan á brott. Hópur nemenda, í hlutverki lögreglumanna, var sendur á vettvang en þegar þangað var komið voru mennirnir á bak og burt. Á vettvangi voru greinileg merki um innbrot og í ljós kom að ýmsu hafði verið stolið úr íbúðinni, m.a. tölvu og myndavél.

Skömmu síðar barst önnur tilkynning til lögreglunnar þegar maður, sem ekki vildi láta nafn síns getið, tilkynnti um undarlegt aksturslag við Rauðavatn. Lýsing hans á bifreiðinni kom heim og saman við lýsingu á þeirri bifreið sem áður hafði verið tilkynnt um við Krókháls 5b.

Annar hópur nemenda var sendur að Rauðavatni og hann kom þar að Grím Thor og Arnari Má sem voru greinilega undir áhrifum áfengis. Þegar „lögregluna“ bar að var Grímur Thor fyrir utan bifreiðina og virtist vera að fela þýfi en Arnar Már sat undir stýri bifreiðarinnar. Mennirnir voru handteknir á staðnum og færðir á „lögreglustöð“, báðir grunaðir um innbrot og þjófnað og Arnar Már að auki um akstur undir áhrifum áfengis.

Í kjölfar þessa urðu nemendur að annast alla nauðsynlega lögreglurannsókn vegna málsins og var sú vinna unnin samhliða kennslu í rannsóknum varðandi tiltekin viðfangsefni. Þannig þurftu nemendur annast alla vettvangsvinnu, afla sönnunargagna og fara með þau á réttan hátt; taka fingra- og skóför; taka ljósmyndir; yfirheyra sakborningana og vitni að innbrotinu og að lokum ganga frá málinu í hendur ákæruvaldsins.

Eitt af því sem þurfti að rannsaka sérstaklega voru fingraför sem fundust í íbúðinni. Þeim varð að koma til samanburðargreiningar hjá kunnáttumanni á því sviði og sá Sævar Þorbjörn Jóhannesson, fingrafarasérfræðingur hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, um þá vinnu.

Nemendur urðu að hafa ákvæði réttarfarslaga að leiðarljósi allan tímann en samkvæmt lögunum er markmið rannsóknar að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að ákveða að henni lokinni hvort sækja skuli mann til sakar svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferðar. Sömuleiðis urðu þeir stöðugt að hafa í huga grundvallaratriði í íslensku réttarfari, að vinna að því að hið sanna og rétta komi í ljós og gæta jafnt að þeim atriðum sem horfa til sýknu og sektar.

Þrátt fyrir að dómþingið væri sviðsett var í því farið að öllum þingreglum enda eitt af markmiðunum með verkefnavinnunni að gefa nemendum kost á því að kynnast því hvernig þinghald fer fram. Ákærandi kynnti ákæruna og grundvöll hennar, dómari leitaði eftir afstöðu ákærðu til sakarefnanna, ákærðu voru kallaðir fyrir dóminn og spurðir spurninga, sömuleiðis var vitni að innbrotinu kallað fyrir dóminn og einnig þeir „lögreglumenn“ sem unnu að málinu og sækjanda eða verjendum þótti ástæða til að spyrja nánar út í tiltekin atriði. Flutningnum lauk með því að sækjandi og verjendur fluttu ræður sínar og að því loknu var málið dómtekið.

Símon Sigvaldason fræddi nemendur um að þegar að aðalmeðferð lyki tæki við mikil vinna hjá dómara áður en hann kæmist að endanlegri niðurstöðu en dómara bæri að jafnaði að kveða upp dóm innan þriggja vikna.

Þótt Símon væri búinn að kynna sér málsgögn rækilega áður en að þinghaldinu kom sagðist hann nú í raun þurfa að lesa allt málið gaumgæfilega og auk þess fara vel yfir þau atriði sem komu fram við aðalmeðferðina. Þegar því væri lokið gæti hann kveðið upp dóm. Ekki verður um slíkt að ræða en Símon taldi þó líkindi til þess að Grímur Thor og Arnar Már væru báðir sekir um þjófnaðinn, hugsanlega fengi Arnar Már dóm fyrir hlutdeild. Einnig taldi Símon ekki fullsannað að Arnar Már væri sekur um akstur undir áhrifum áfengis og, eins og nemendum væri fullkunnugt um, væri allur vafi sakborningi í hag.

Símon talaði að lokum almennum orðum til nemenda um lögreglurannsóknir og brýndi fyrir þeim, sem verðandi lögreglumönnum, að temja sér fagleg og vönduð vinnubrögð í hvívetna þannig að þau væru hafin yfir allan vafa og að réttlát niðurstaða fengist í hverju máli. Dagmar Ösp tók fram að í þessu tiltekna „máli“ hafi, miðað við gögn málsins, verið vel að verki staðið að öllu leyti.

Arnar Guðmundsson, skólastjóri Lögregluskóla ríkisins, þakkaði öllum þeim sem veittu skólanum velvild og aðstoðuðu við framkvæmd verkefnisins og sagði að slíkt væri ómetanlegt fyrir skólann. Þess má geta að Símon, Arnar Þór og Dagmar Ösp hafa öll annast stundakennslu við skólann og Arnar og Jón voru samstarfsfélagar hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins á sínum tíma.

Það skal tekið sérstaklega fram að ekki var um neinn „málskostnað“ að ræða, allir utanaðkomandi gáfu vinnu sína og Arnar Þór sagði heiður í því fólginn að fá að taka þátt í verkefninu.

Arnar Þór Jónsson og Jón Höskuldsson, verjendur sakborninga, niðursokknir í málsskjölin