9 Mars 2012 12:00

Lögreglunni á Suðurnesjum barst í vikunni tilkynning um tvo unga drengi sem óku um á skellinöðrum í umdæminu. Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að piltarnir voru einungis tólf ára og hjálmlausir ofan í kaupið.  Lögregla hafði samband við forráðamenn þeirra og gerðar voru viðeigandi ráðstafanir.

Þá stöðvaði lögreglan á Suðurnesjum för þriggja fimmtán ára pilta, sem óku réttindalausir um á vespum.

Lögregla hvetur foreldra og forráðamenn til að hafa eftirlit með því að hættulegir leikir af þessu tagi eigi sér ekki stað.

Fíkniefni í skáp

Afskipti lögreglunnar á Suðurnesjum af ökumanni í vikunni leiddu til þess að fíkniefni fundust falin í skáp í íbúð í umdæminu.  Ökumaðurinn, kona um tvítugt,  var stöðvuð, grunuð um akstur undir áhrifum fíkniefna.  Það leiddi til þess að lögreglan hélt síðan á heimili hennar þar sem hún býr ásamt  annarri konu um þrítugt. Að fengnu leyfi til leitar í íbúðinni fann lögreglan fíkniefni í neysluskömmtum falin í svörtu boxi inni í fataskáp. Auk fyrrnefndu konunnar var ungur karlmaður stöðvaður við akstur í umdæminu í vikunni, einnig grunaður um að aka undir áhrifum fíkniefna.

Umferðarslys vegna hálku

Tvö umferðarslys sem rekja má til hálku urðu í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum í vikunni. Í öðru tilvikinu skullu tveir bílar saman á gatnamótum. Ökumaður annarrar bifreiðarinnar var fluttur með sjúkrabifreið til  aðhlynningar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Meiðsli hans munu ekki hafa verið alvarleg.

Þá missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á svokölluðum Stafnesvegi á milli Sandgerðis og Hafnavegar. Bíllinn snérist í heilan hring og hafnaði utan vegar. Ökumaðurinn slapp ómeiddur en farþegi sem í bílnum var leitaði sjálfur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem hann fann til eymsla í hálsi eftir óhappið.  Lögregla hvetur ökumenn til að sýna varúð séu aðstæður til aksturs slæmar.