21 Janúar 2007 12:00
Í dag var kveðinn upp í Héraðsdómi Suðurlands gæsluvarðhaldsúrskurður yfir tæplega þrítugum manni til tveggja vikna vegna rannsóknar á meintu innbroti og íkveikju í íbúðarhúsi í Þorlákshöfn. Maður þessi var handtekinn í gær þar sem hann reyndi að nota greiðslukort sem stolið var úr húsinu í viðskiptum í Reykjavík. Í tengslum við málið var gerð húsleit á tveimur stöðum, annarsvegar í Þorlákshöfn og hinsvegar í Reykjavík og fannst þýfi úr húsinu við leit á öðrum staðnum. Þar býr unnusta þess sem þegar hefur verið úrskurðaður í gæslu. Hún hefur verið úrskurðuð í gæsluvarðhald til kl. 16:00 mánudaginn 29. janúar n.k. Gerð var krafa um gæsluvarðhald yfir þriðja manninum sem grunaður er um aðild að málinu og tók dómari sér frest til kl. 16:00 á morgun til að úrskurða um hana. 17 ára stúlku og tvítugum karlmanni sem handtekin voru í þágu rannsóknar málsins hefur verið sleppt.
Brotin sem til rannsóknar eru eru m.a. talin varða við 2. mgr. 164. gr., 244 gr. og 248. gr. almennra hegningalaga.