29 September 2012 12:00

Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði í vikunni tvo unga pilta sem tvímenntu á rafmagnsvespu. Þeir sögðust ekki hafa vitað að bannað væri að vera með farþega á slíku farartæki. Ætlaði annar þeirra fótgangandi heim, en hinn að aka hjólinu. Haft var samband við foreldra drengjanna og þeim sagt frá atvikinu. Nokkuð hefur verið um að afskipti hafi verið höfð af unglingum að undanförnu, sem hafa verið að reiða félaga sína á rafmagnsvespum. Lögregla hvetur forráðamenn barna og unglinga að brýna fyrir þeim að slíkt sé óheimilt. Auk þess skal öryggisbúnaður vera í lagi.

Vildi peningana strax

Lögreglan á Suðurnesjum var í vikunni kvödd á veitingastað í umdæminu, þar sem maður var sagður láta ófriðlega. Þegar lögreglumenn komu á vettvang var þar fyrir erlendur ferðamaður, ekki sáttur. Hann hafði smellt sér í spilakassa á staðnum og unnið 65 þúsund krónur. Þar sem vinningar hærri en 50 þúsund krónur eru ekki greiddir út á viðkomandi spilastað heldur hjá Happdrætti Háskóla Íslands fékk maðurinn aðeins vinningskvittun í hendur. Með það fyrirkomulag var hann afar óánægður og vildi peningana strax. Lögregla tjáði honum að hann fengi vinninginn greiddan næsta dag, svo sem reglur HHÍ mæla fyrir um. Við það róaðist hann og hélt sína leið.