24 Janúar 2012 12:00

Nokkuð ber á því að starfandi dyraverðir á veitinga- og skemmtistöðum eru ekki með heimild lögreglustjóra til starfans en allmargir gátu ekki framvísað dyravarðaskírteini þegar eftir því var leitað. Þetta var niðurstaðan eftir eftirlit helgarinnar en þá voru fjölmargir veitinga- og skemmtistaðir á höfuðborgarsvæðinu heimsóttir. Athygli vakti að það var einkum á stöðum utan miðborgarinnar sem þessi mál voru í ólagi.

Til að fá útgefið dyravarðaskírteini hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu skulu umsækjendur vera að minnsta kosti 20 ára og hafa ekki gerst sekir um ofbeldis- eða fíkniefnabrot. Leggja skal fram sakavottorð því til staðfestu. Erlendir ríkisborgarar skulu leggja fram sakavottorð frá sínu heimalandi.

Um þetta er fjallað í reglugerð um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald en í henni er hlutverk dyravarða jafnframt skilgreint. Ef rekstraraðilar virða fyrrnefnd ákvæði ítrekað að vettugi geta hinir sömu búist við viðurlögum, t.d. sviptingu eða afturköllun rekstrarleyfis. 

Lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald

Reglugerð um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald