20 Desember 2018 11:54

Félagsvísindastofnun hefur tekið saman niðurstöður úr könnun á viðhorfum til lögreglu, þjónustu og starfa hennar.

Í skýrslunum kemur m.a. fram að árið 2017 leituðu 33% landsmanna eftir einhvers konar þjónustu lögreglu sem er örlítið lægra hlutfall en árin á undan. Af þeim sem leituðu til lögreglu hringdu flestir í Neyðarlínu (112) eða rúmlega helmingur þeirra sem leituðu til lögreglu og um fjórðungur hafði samband við lögreglu gegnum samfélagsmiðla. Höfuðborgarbúar eru líklegri til að nýta sér samfélagsmiðla til að hafa samband við lögreglu en íbúar á landsbyggðinni, eða rúmlega 30% höfuðborgarbúa samanborðið við t.d. 7% íbúa á Norðurlandi vestra.

Um það bil 74% landsmanna telja lögreglu frekar eða mjög aðgengilega og er þetta hlutfall svipað og undanfarin ár. Íbúar á Norðurlandi eystra eru líklegastir til að telja lögregluna aðgengilega (89%) en hlutfallslega fæstir íbúar á Austurlandi (67%), Norðurlandi vestra (69%) og höfuðborgarsvæðinu (69%). Tæplega helmingur landsmanna fylgist með lögreglunni á samfélagsmiðlum og er Facebook vinsælasti miðillinn, en 44% fylgist með á þeim miðli. Þá fylgist 8% landsmanna með lögreglunni á Instagram.

Traust til lögreglunnar er almennt mikið, en 87% segjast vera frekar eða mjög sammála því að þeir beri traust til lögreglu og starfa hennar. Hærri hlutfall kvenna en karla ber traust til lögreglunnar og eins fer hlutfallið hækkandi með aldri.

Um könnunina: Könnunin var lögð fyrir 5.200 manna lagskipt tilviljunarúrtak af landinu öllu, 2.500 svarenda voru af höfuðborgarsvæðinu og 2.700 af landsbyggðinni. Könnunin var lögð fyrir netpanel félagsvísindastofnunar og úrtak úr þjóðskrá og var svarhlutfallið 55%. Niðurstöður eru birtar í tveimur skýrslum; í annarri eru teknar saman upplýsingar fyrir allt landið og í hinni eru niðurstöður fyrir höfuðborgarsvæðið greindar sérstaklega.

 

Niðurstöður könnunarinnar fyrir allt landið má finna hér

Niðurstöður með nánari greiningu fyrir höfuðborgarsvæðið má finna hér