27 September 2005 12:00

Vegna umfjöllunar í fjölmiðlum um vinnubrögð lögreglunnar í Reykjavík við rannsókn á ætluðu kynferðisbroti um verslunarmannahelgina 2002 vill lögreglan í Reykjavík koma eftirfarandi skýringum á framfæri:

Tildrög málsins eru þau að aðfaranótt föstudagsins 2. ágúst 2002 kl. 04:37 barst lögreglu tilkynning um ætlaða nauðgun í húsi í Breiðholti. Rannsókn málsins hófst þá þegar og var farið með kæranda á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis. Í fyrstu lágu engar upplýsingar fyrir um ætlaðan brotavettvang og litlar eða engar upplýsingar um ætlaða gerendur. Þá þegar var hafist handa við að leita á skipulagðan og kerfisbundinn hátt að ætluðum brotavettvangi í því skyni að handtaka ætlaða gerendur, framkvæma þar vettvangsrannsókn og leggja hald á sýnileg sönnunargögn. Til að finna  ætlaðan brotavettvang var haft samband við leigubifreiðastöðvar en fram kom í málinu að kærðu og kærandi höfðu tekið leigubifreið á staðinn umrædda nótt. Bar það ekki árangur. Brotavettvangur fannst fyrir hádegi þennan dag eftir ábendingum frá kæranda. Húsráðandi reyndist vera einn í íbúðinni og sofandi. Var hann handtekinn kl. 11:40 og færður á lögreglustöð þar sem skýrsla var tekin af honum kl. 13:50. Strax var hafist handa við að framkvæma rannsókn á vettvangi. Ítarlegar skýrslur voru ritaðar um framangreindar rannsóknaraðgerðir. Ljóst var strax í upphafi rannsóknar málsins að kærandi og kærðu þekktust ekki. Kærandi upplýsti að aðeins einn mannanna hafði kynnt sig og nefndi hún gælunafn manns sem hefur áður komið við sögu lögreglu. Húsráðandi nefndi hins vegar nafn annars manns. Þriðja manninn kvaðst hann ekki þekkja en sagði hann vera frænda mannsins sem hann nafngreindi.   Síðar sama dag var húsráðanda sleppt úr haldi lögreglu enda voru ekki talin skilyrði til að halda honum lengur handteknum. Skýrsla hafði þá verið tekin af honum, framkvæmd á honum réttarlæknisfræðileg skoðun, rannsókn á brotavettvangi var lokið og skýrsla hafði verið tekin af kæranda og hún jafnframt gengist undir réttarlæknisskoðun. Engin hætta var því talin á að húsráðandi gæti afmáð merki eftir ætlað brot eða skotið undan munum. Í skýrslu sem tekin var af húsráðanda kom fram að kynmök hefðu átt sér stað með samþykki kæranda og engu ofbeldi eða hótunum um ofbeldi hefði verið beitt. Ekkert á brotavettvangi gaf til kynna að ofbeldisverknaður hefði verið framinn á staðnum og kærandi bar enga sýnilega áverka eftir ofbeldi.           Ljóst er að það flækti rannsókn málsins strax í upphafi að kærandi og kærði nefndu ekki nafn sama mannsins en ljóst var að sá maður einn gæti vísað á þriðja manninn. Lögreglu var því ekki ljóst í upphafi hvaða manna hún leitaði. Eftir helgina bárust böndin að tilteknum manni. Sá maður var til sjós í öðru umdæmi og mætti hann til skýrslutöku þegar upp á honum hafðist. Skýrsla var tekin af honum fimmtudaginn 8. ágúst og upplýsti hann þá hver hinn óþekkti maður væri. Daginn eftir var skýrsla tekin af þriðja manninum.Það er mat lögreglu að allt hafi verið gert sem í hennar valdi stóð til að upplýsa þetta mál. Að mati lögreglu voru ekki lagaskilyrði til að gera kröfu fyrir héraðsdómi um að húsráðandi sætti gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Ekkert kom fram í skýrslu húsráðanda né við aðrar rannsóknaraðgerðir lögreglu sem gaf tilefni til að krefjast gæsluvarðhalds og verður að telja mjög ósennilegt að dómari hefði fallist á slíka kröfu.  Svo sem fram hefur komið var lögreglan í Reykjavík jafnframt að vinna að alvarlegu líkamsárásarmáli umrædda verslunarmannahelgi en engu að síður var unnið að rannsókn þessa máls eftir getu um helgina. Skiptir mestu í því sambandi að ekki var óyggjandi hvaða tveir menn aðrir  komu þarna við sögu fyrr en eftir helgina eins og áður greinir. Það er mat embættisins að sá tími sem leið þar til teknar voru  skýrslur af tveimur sakborninganna hafi ekki haft áhrif á niðurstöðu rannsóknarinnar. Ekkert bendir til þess að kærðu hafi náð að samræma frásögn og framburðir þeirra eru ekki í svo miklu samræmi að líklegt sé að þeir hafi talað sig saman um málið. Þá telur embættið að það hefði engu breytt um ákvörðun ríkissaksóknara um að gefa ekki út ákæru í málinu þótt náðst hefði að taka umræddar skýrslur fyrr.