6 September 2019 15:56

Rétt er að taka fram vegna umfjöllunar um bílamiðstöð ríkislögreglustjóra að í fjárlögum 2019 er gert ráð fyrir að rekstur lögreglubifreiða skili 200,2 m.kr. afgangi. Samsvarandi fjárfestingaheimild er svo á stofnlið lögreglubifreiða hjá lögregluembættunum. Þau eru því með útgjaldaheimildir í fjárlögum, sem ákveðin eru á Alþingi til að greiða þennan kostnað.

Til útskýringar má benda á að kílómetragjaldi er ætlað að standa undir öllum kostnaði vegna reksturs ökutækja lögreglu, nánar til tekið eldsneyti, tryggingum, viðhaldi, tjónum, rekstrarkostnaði vegna sérbúnaðar s.s. fjarskipta- og tölvubúnað o.fl. Þá hefur almennum kostnaði við rekstur bílamiðstöðvarinnar verið skipt á hvern ekinn kílómetra og fellur sá kostnaður á öll embætti, einnig embætti ríkislögreglustjóra. Þess ber einnig að geta að þegar fastur kostnaður s.s. eins og tryggingar, eykst og breytilegur kostnaður eins og akstur, dregst saman, hefur það í för með sér að kílómetragjald hækkar.

Í síðasta útboði Ríkiskaupa á ábyrgðartryggingu ökutækja lögreglu hækkaði verð trygginga um 50%, sem líklega endurspeglar aukinn tjónakostnað annarra af völdum ökutækja lögreglu. Einnig hefur eigin tjónakostnaður bílamiðstöðvar aukist um 500% frá árinu 2016 auk þess sem tíðni tjóna hefur aukist.
Á umliðnum árum hefur tjóna- og viðhaldskostnaður bifhjóla verið mjög hár. En slíkt á nú almennt við um þennan kostnað lögreglu. Eins og sjá má á töflu hér að neðan um eigin tjón lögreglu árin 2016 til 2018.

Ríkislögreglustjóri hefur ávallt lagt á það áherslu að kaupa öruggar bifreiðar. Þannig hefur verið tekin upp sú stefna að kaupa frá frumframleiðenda ökutæki sem eru ætluð til lögreglustarfa og eru sérútbúnin sem slík. Það hefur verið áratuga baráttumál Landssambands lögreglumanna sem lögreglustjórar hafa stutt. Ef það er mat lögreglustjóra að ekki þurfi að kaupa sérútbúin ökutæki með öllum þeim sérbúnaði sem hingað til hefur verið krafist, en tryggja um leið öryggi lögreglumanna í starfi, er ljóst að lækka má kostnað verulega.
Á fundi ríkislögreglustjóra með lögreglustjórum sl. föstudag kom fram ósk um að gjaldskrá bílamiðstöðvar verði endurskoðuð og er slík vinna þegar hafin með hliðsjón af þeim ákvörðunum sem voru teknar nú í sumar.

Bílamiðstöð ríkislögreglustjóra varð til með ákvörðun dómsmálaráðuneytisins árið 2000, gera má ráð fyrir að þá hafi miðlæg bílamiðstöð þótt betri nýting takmarkaðra fjármuna. Nú hefur ráðuneytið tekið ákvörðun um niðurlagningu bílamiðstöðvar og skipað starfshóp til að vinna að niðurlagningunni og gera tillögur til um framtíðarfyrirkomulag á rekstri ökutækja lögreglu. Embætti ríkislögreglustjóra tekur þátt í þeirri vinnu með það að leiðarljósi að tryggja að lögbundnum skyldum lögregluembættanna sé sinnt með sem öruggustum og hagkvæmustum hætti fyrir almenning og skattgreiðendur.